Hamarsmenn tóku á móti Fylki í 8 liða úrslitum í Kjörísbikarnum í kvöld.

Bikarmeistarar Hamars sátu hjá í fyrri umferðum og var þetta því fyrsti leikur liðsins í bikarkeppninni í ár. Fylkismenn mættu sprekir til leiks og þurftu Hamarsmenn að hafa töluvert fyrir hlutunum í fyrstu hrinu. Eftir hetjulega baráttu Fylkismanna fór þó svo að heimamenn unnu hrinuna með 25 stigum gegn 20. Við það var eins og allur vindur væri úr Fylkismönnum og vann Hamar næstu hrinur 25-14 og 25-13 og leikinn þar með örugglega 3-0.

Maður leiksins að öðrum ólöstuðum var Ragnar Ingi Axelsson, frelsingi Hamars.

Með sigrinum tryggðu Hamarsmenn sér þátttökurétt í bikarhelgi Blaksambandsins, Kjörísbikarnum, sem fram fer 1. – 3. apríl næstkomandi.