Eftir samfellda sigurgöngu frá stofnun úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki sumarið 2020 kom að því að liðið tapaði leik.

Hamar lék gegn HK á útivelli í kvöld og voru Hamarsmenn lengi í gang og töpuðu fyrstu hrinu 25-21. Í annari hrinu sýndu þeir svo lit og unnu hana 21-25 og stefndi í spennandi leik. Þriðja hrinan var hnífjöfn þar sem liðin skiptust á forustu í lokin. HK vann þó hrinuna 28 – 30 eftir upphækkun. Tapið virtist koma illa við Hamarsmenn sem áttu erfitt með að ná sér á strik aftur og lentu þeir 8 stigum undir um miðja 4. hrinu. Það bil náðu þeir aldrei að brúa og tapaðist hrinan 25-16 og fyrsta tapið í efstu deild staðreynd.
Hamarsmenn fengu að finna fyrir því að leikmannahópurinn er fámennur. Radoslaw Rybak, þjálfari liðsins var meiddur og spilaði ekki með. Það kom því í hlut Valgeirs Valgeirssonar að fylla í skarð Wiktors í byrjunarliði Hamars, en Wiktor gekk til liðs við lið í Póllandi á nýju ári. Valgeir gekk þó ekki heldur heill til skógar en kláraði þó leikinn.

Það stefnir í spennandi bikarúrslit og lokakeppni Íslandsmóts ef marka má úrslit þessa leiks.