Hamar spilaði sinn fyrsta leik í Lengjubikarnum þegar að þeir mættu liði Mídasar í gærkvöldi á Leiknisvelli. Hamarsmenn mættu einbeittir til leiks og héldu boltanum vel sín á milli á meðan Mídas lágu til baka og freistuðu þess að sækja hratt. Tómas Hassing skoraði fyrsta mark Hamars eftir sendingu frá Daníel Rögnvaldssyni og staðan var 1 – 0 eftir fyrri hálfleik. Hamar hélt uppi mikilli pressu í seinni hálfleik og ljóst var að eitthvað varð að bresta en Tómas Hassing skoraði aftur eftir hornspyrnu og aftur var það Daníel Rögnvaldsson með stoðsendinguna. Daníel Rögnvaldsson var svo sjálfur á ferðinni þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum og var það Kaleb Goodman sem lagði upp markið. Páll Pálmason skoraði svo fjórða markið eftir góða sendingu frá Kaleb Goodman. . Mídas náði að klóra í bakkann eftir góða skyndisókn en Daníel Rögnvaldsson svaraði að bragði og lokatölur 5 – 1. Flottur leikur hjá Hamri og verður spennandi að fylgjast með þeim í ár. Næsti leikur er 2. Apríl en þess má geta að liðið er á leiðinni til Spánar í æfingaferð.