Íþróttafélagið Hamar sendi 7 fulltrúa á árlegt HSK-þing sem að þessu sinni var haldið í Brautarholti á Skeiðum. Nokkrir Hamarsmenn fengu viðurkenningu sem íþróttamenn sinnar greinar innnan HSK. Það voru þau: Imesha Chaturunga fyrir badminton, Hugrún Ólafsdóttir fyrir blak og Íris Ásgeirsdóttir fyrir körfuknattleik. Að auki voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi barna- og unglingastarf og hlaut körfuknattleiksdeild Hamars þá viðurkenningu. Daði Steinn Arnarson veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd deildarinnar. Þingið tókst vel og var Guðríður Aadnegard endurkjörinn formaður HSK.

Nánar um viðurkenningu Hamarsfólks:

Foreldrastarfsbikar HSK 2011

Allt frá stofnun körfuknattleiksdeildar Hamars 1992 hefur það verið stefna deildarinnar að bjóða upp á öflugt barna- og unglingastarf enda ljóst að það tekur tíma að ala upp framtíðarleikmenn. Í upphafi þjálfunar er lögð áhresla á að kenna í gegnum leik. Gríðarlega mikilvægt er að efla og viðhalda áhuga barnanna á íþróttinni og það gera foreldrar best með því að sýna iðkun þeirra áhuga, fylgjast með æfingum, mæta á leiki og styðja þau og hvetja eins og kostur er. Frá byrjun hefur foreldrastarf verið með miklum blóma hjá deildinni. Við hvern flokk starfar foreldraráð sem heldur utan um starfið og skipuleggur m.a. fjáraflanir, keyrslu á mót og æfingaferðir.

Síðustu tíu ár hefur sú hefð skapast að annað eða þriðja hvert ár er farið með 9. og 10. flokk pilta og stúlkna í sameiginlega æfingaferð erlendis. Í ár verður haldið til Philadelpia í Bandaríkjunum.

Til þess að gera ferð sem þessa mögulega er að baki langur og strangur undirbúningur sem hefur að mestu mætt á foreldrum. Fyrir hverja ferð er skipað fjáröflunarráð sem hefur yfirumsjón með öllum fjáröflunum er tengjast ferðinni, þar með talinn rekstur sjoppunnar á heimaleikjum. Það er á ábyrgð fjáröflunarráðsins að virkja aðra foreldra og ekki síður krakkana sjálfa og hefur það tekist afskaplega vel.

Að lítið íþróttafélag, eins og Hamar í Hveragerði, skuli eiga tvö lið á meðal þeirra bestu á Íslandi í körfubolta er ekki sjálfgefið. Þar er ekki síst að þakka stórum hópi foreldra sem hefur elst með liðunum og verið óþreytandi að starfa með félaginu. Margir foreldrar hafa unnið kröftugt sjálfboðaliðastarf í þágu barna sinna frá minnibolta upp í meistaraflokka.

Og af hverju leggja foreldrar þetta á sig? Vegna þess að þetta starf er afskaplega gefandi og skemmtilegt og í gegnum íþróttir barnanna kynnast foreldrar betur. Foreldrar eignast vini og félaga rétt eins og börnin án þess að þurfa að leggja eins mikið á sig líkamlega.

 

Badmintonmaður HSK 2011

Imesha Chaturanga, Íþróttafélaginu Hamri, er badmintonmaður HSK árið 2011.

Hann varð þrefaldur HSK meistari á árinu, í karlaflokki, U19 og í sínum flokki U17. Ismesha er prúður leikmaður sem hefur tekið miklum framförum og verið sigursæll að undanförnu og kann að taka ósigri jafnt sem sigri af sannri íþróttamennsku.

 

Blakmaður HSK 2011

Hugrún Ólafsdóttir, Íþróttafélaginu Hamri, er blakmaður ársins hjá HSK 2011.

Hugrún hefur verið einn helsti máttarstólpi blakliðs Hamars og stundar íþrótt sína vel. Hugrún er ákaflega samviskusöm og metnaðargjörn fyrir sjálfa sig og lið sitt og nákvæm í öllum sínum aðgerðum.

 

Körfuknattleiksmaður HSK 2011

Íris Ásgeirsdóttir úr Hamri, er körfuknattleiksmaður HSK 2011.

Hún var fyrirliði meistaraflokks kvenna á síðustu leiktíð þegar liðið varð deildarmeistari Iceland Express deildarinnar 2011 sem er stærsti titill Körfuknattleiksdeildar Hamars fram að þessu. Íris er afar góð fyrirmynd þeirra sem yngri eru. Hún tekur æfingar alvarlega og leggur sig alla fram og spilar ávallt af einbeitingu og yfivegun.