Karlalið Hamars í blaki vann í kvöld enn einn titilinn þegar liðið varð meistari meistaranna eftir 3-0 sigur á KA.

Hamarsmenn voru aðeins seinir í gang í byrjun leiks. Þeir náðu sér svo á strik og unnu hrinurnar 25-22, 25-19 og 25-22 eftir smá hikst í þriðju hrinunni.

Áttundi titillinn af átta mögulegum frá því liðið hóf keppni meðal þeirra bestu er því kominn í hús.

Nýju leikmennirnir, uppspilarinn Hubert Lasecki og kantspilarinn Marcin Grasza spiluðu sinn fyrsta leik fyrir Hamar ásamt spilandi þjálfaranum Tamas Kaposi og áttu þeir fínan dag á vellinum þrátt fyrir takmarkaðan undirbúningstíma.

Aðspurðir, voru aðstandendur félagsins á heildina litið sáttir með frammistöðuna í dag. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki æft lengi saman með núverandi leikmannahóp virtist liðið vel stemmt og tilbúið til að takast á við veturinn og eigi mikið inni.