Kæru stuðningsmenn og aðrir Hvergerðingar

Nú er frábæru knattspyrnusumri lokið hjá meistaraflokki karla í Hamri.  Er gaman að rifja upp þegar ég settist niður með stjórninni í nóvember og við ræddum um hvað við vildum fá út úr sumrinu eftir erfitt ár í fyrra. Við vorum allir sammála um að nú þyrfti að byrja á byrjun, það þyrfti að búa til kjarna af heimamönnum sem myndu vera í aðalhlutverki í Hamars liðinu til næstu ára.

Það markmið náðist og gott betur en það, af þeim 29 leikmönnum sem spiluðu fyrir Hamar í sumar komu 21 frá Hveragerði.  Árangurinn lét heldur ekki á sér standa, 8 leikir unnust og aðeins 4 töpuðust með minnsta mögulega mun. Oft var boðið uppá markaveislu þar sem Hamar skoraði að meðaltali 4 mörk í leik.

Mikill hugur var í leikmönnum,  sem settu það markmið fyrir sumarið að komast í úrslitakeppnina, það eina sem skildi að Hamar og efstu lið riðilsins, var reynsluleysi.  Sem dæmi um það voru 8 leikmenn af þeim 11 sem byrjuðu í svokölluðum úrslitaleik á móti ÍH, 20 ára eða yngri.

Framtíðin er björt í Hveragerði og líkur eru á að flestir leikmenn sem voru í sumar verði áfram með okkur næsta sumar.  Stefnan verður því sett á að gera enn betur.

Umgjörðin utan um heimaleiki var frábær og stuðningur ykkar var ómetanlegur.  Það er ótrúlega mikilvægt fyrir ungt lið Hamars að finna stuðning, enda er oft sagt að góður stuðningur sé eins og tólfti leikmaðurinn.

Um leið og ég vil þakka ykkur fyrir sumarið vonast ég til að sjá ykkur á vellinum næsta sumar.

 

Með fótboltakveðju

Ólafur Hlynur                                                                                                          Ólafur Hlynur 3