sundnamsk480

Hamarsmenn halda í víking til Mosfellsbæjar og leika þar gegn heimamönnum í Aftureldingu í kvöld kl.20:00. Við hvetjum auðvitað alla Hvergerðinga og aðra stuðningsmenn Hamars til að skella sér í Mosó til að styðja við bak sinna manna.

 

Þeir sem eiga þess ekki kost að bruna í bæinn geta stillt inn á sportradio.is og hlustað á beina lýsingu leiksins. Nánari upplýsingar um útsendinguna er að finna hér.

 

Áfram Hamar!!!

Það voru vaskir Völsungar frá Húsavík sem mættu á Grýluvöll í gær er Hamarspiltar léku sinn annan leik í Íslandsmóti 2. deildar KSÍ. Veðrið lék við gesti sem og leikmenn en lítið fór fyrir “fagra leiknum” að hálfu heimamanna í þetta sinn.

 

Hamarspiltar virtust ákveðnari rétt til að byrja með en fengu á sig slysalegt mark strax á 5. mínútu eftir hornspyrnu gestanna og mistalningu í vörninni. Hamarspiltar voru þó töluvert meira með boltann án þess þó að skapa sér nein alvöru færi og virtust menn svolítið taugaóstyrkir á vellinum. Spil Hamars gekk því miður svolítið út á langar kýlingar frá fyrsta þriðjungi vallarins fram á sóknarmennina sem hafa átt betri dag.

 

Allt spil upp kanta og miðju, þegar það var reynt, virtist ráðleysislegt og skilaði allt of litlu. Völsungar eru með skemmtilega blöndu ungra og vinnusamra leikmanna og svo þriggja lykilpósta, markmanns, miðvarðar og framherja af erlendu bergi brotnu. Markvörðurinn og miðvörðurinn voru sem klettar í vörn gestanna og það skapaðist alltaf hætta er framherjinn þeirra fékk boltann.

 

Undir lok fyrri hálfleiks bættu gestirnir við öðru marki eftir mistök í vörn Hamars, sending kemur yfir til vinstri þar sem bakvörður Hamars er illa staðsettur og framherji gestanna klárar á laglegan hátt. 2-0 og kominn hálfleikur.

 

Í hálfleik voru gulldrengnum Sigurði Gísla og skiptinemanum súper-Sene skipt inn á og það tók ekki nema tvær mínútur fyrir Sene að minnka muninn, staðan 1-2 og leikurinn opnaðist á ný. Það liðu þó ekki nema um sex mínútur frá Hamarsmarkinu er Völsungar skoruðu sitt þriðja mark og það annað eftir hornspyrnu er erlendi miðvörðurinn þeirra setti sitt annað mark og breytti stöðunni í 1-3.

 

Hrafnkell fékk sitt annað gula spjald fyrir kjaftbrúk á 75. mínútu, eitthvað sem á ekki að gerast eða sjást og alls ekki þegar menn eru þegar á spjaldi, og í kjölfarið rautt og brottvísun. Þetta var annað rauða spjald Hrafnkels í jafn mörgum leikjum í deildinni og því von á ágætu leikbanni hjá Kela sem þarf að huga að því alvarlega hvort það hjálpi liðinu að spila manni færri í leikjum sumarsins eður ei. Leikmaður völsungs fékk svo einnig að fjúka út af á 80. mínútu og því jafnt í liðum.

 

Er leikurinn var að renna sitt skeið á enda minnkaði súper-Sene muninn á laglegan hátt en lengra komust Hamarspiltarnir okkar ekki og 2-3 tap því staðreynd. Margt má laga í leik Hamars en þeim til hróss þá er baráttan í liðinu til staðar og þeir hætta aldrei leik fyrr en dómarinn hefur flautað af. Porca þjálfari þarf að slípa nokkra vankanta af leik liðsins og þegar það kemur er þessum leikmönnum og liðinu í heild allir vegir færir og sigrarnir fara að detta inn.

 

Næsti leikur Hamars er í Mosfellsbæ fimmtudaginn 24. maí kl. 20:00 er piltarnir okkar heimsækja heimamenn í Aftureldingu. Fylgjum strákunum okkar í Mósó og styðjum þá til sigurs.

 

Áfram Hamar!!!

sumarkort

Hamarspiltar féllu úr leik í bikarkeppni KSÍ í gær. Þrátt fyrir stuttbuxnaveður og blíðu inn í Kórnum, knattspyrnuhöll Kópavogsbúa, var algert frost í leik Hamarsmanna og lítið meira um það að segja.

 

Það verður því ekkert Hamarslið í pottinum er dregið verður í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar og „mjólkurkúin“ af þessu túni því víðsfjarri þetta sumarið.

 

Nú er bara að snúa sér að alvörunni, keppni á Íslandsmótinu, því næstkomandi laugardag, þann 19. maí kl. 16:00 leika Hamarspiltar við Völsung frá Húsavík og skal sækja ekkert minna en 3 stig úr farangri Þingeyinga í þetta sinn.

 

Mætum öll á leikinn og styðjum Hamarsmenn til sigurs. Munið að kaupa ársmiða, sem veita ríflegan afslátt á leiki og styðja um leið við starf knattspyrnudeildarinnar.

 

Áfram Hamar!!!

Meistaraflokkur Hamars mætir til leiks í bikarkeppni KSÍ í kvöld er þeir heimsækja lið Augnabliks í knattspyrnukór Kópavogsbúa. Leikið verður innanhúss enda veðurfarið ekki verið upp á marga fiska undanfarið, þó Hamarsmenn kvarti ekki enda beiðni um þetta fyrirkomulag ekki komið frá Hveragerði, þó það komi sér vissulega vel í þessu tíðarfari. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:00 í logni og rjómablíðu, óháð ytri veðurskilyrðum.

 

Lið Augnabliks er formlegt eða óformlegt dótturfélag Pepsideildar liðs Breiðabliks. Breiðablik þekkja allir, hvort heldur sem knattspyrnulið eða heimili Baldurs í Gylfaginningu Snorra Sturlusonar en í lið Augnabliks hafa safnast í gegnum tíðina gamlir „Blikar“ og/eða ungir Kópavogsbúar í leit að leiktíma og jafnvel leikgleði. Augnablik lagði lið Hómers (óvíst hvort nafngiftin tengist amerískri teiknimyndaseríu eða grískum höfundi Ódysseifskviðu) að velli í fyrstu umferð bikarkeppni KSÍ 1-3 og fær nú það hlutverk að taka á móti Hamarspiltunum okkar.

 

Augnabliksmenn leika í 3. deildinni og var árangur þeirra síðastliðið sumar nokkuð eftirtektarverður. Augnablik sigraði riðilinn sinn og lék við KV í 8 liða úrslitum. KV, sem leikur nú í 2. deild, þótti heppið að komast áfram úr þeirri viðureign eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna á heimavelli 2-1 en tapað þeim síðari 3-2. Útivallareglan, þ.e.a.s. fjöldi skoraðra marka á útivelli, tryggði KV áframhaldandi þátttöku en felldi Augnablik.

 

Það er því alls ekki víst að og enganveginn tryggt að um auðvelda viðureign verði að ræða fyrir Hamarsdrengi er þeir mæta í knattspyrnuhöllina Kórinn í kvöld. Það er þó að miklu að keppa, því sigurvegari leiksins fer í pottinn fræga er dregið verður í 32ja liða úrslit bikarkeppninnar þar sem öll „stóru“ liðin koma inn og því möguleiki á vænni „mjólkurkú“ eða a.m.k. skemmtilegri upplifun leikmanna og áhorfenda í næstu umferð.

 

Hvergerðingar og Hamarsfólk, nær og fjær, ætti því að skella sér í léttan þriðjudagsbíltúr í Kópavoginn í kvöld til að styðja við bak sinna manna og hvetja þá áfram til næstu umferðar.

 

Áfram Hamar!!!

gulldrengurinn_a_godum_degiHamarsmenn fengu í heimsókn til sín á Grýluvöll spræka Gróttupilta frá Seltjarnarnesi, sem spáð er 3. sæti í deildinni af forráðamönnum og fyrirliðum annarra liða samkvæmt vinsælli sparkspekingasíðu.

 

Það er þó nokkuð ljóst að fyrirliði Hamars og forráðamenn tikkuðu ekki Gróttuna ofar en sig sjálfa, því strax frá fyrstu mínútu tóku heimamenn völdin á vellinum. Hann var þó ekki beint suðrænn og seiðandi boltinn sem leikinn var á Grýluvelli, meira svona “loksins-kominn-á-gras-út-í-rigninguna” bolti.

 

Gulklæddir Gróttumenn, sem stunda sína íþrótt á sígrænum plast/gúmmí fótboltavelli, voru eitthvað seinir að fóta sig á misgræna Grýluvellinum því strax á 7. mínútu fékk Sene Abdalha stungusendingu sem hann kláraði í mark gestanna og staðan 1-0 fyrir Hamar, vel klárað hjá skiptinemanum okkar. Töluvert var um stöðubaráttu á vellinum en Hamarsdrengir þó sterkari án þess að valda of miklum usla í vörn Gróttu, enda hörkulið þar á ferð. Þegar komið var á 37. mínútu sótti leikmaður Seltirninga til vinstri á vítateig okkar pilta og plataði annars ágæta varnarmenn Hamars í gildru sem þeir féllu fyrir, þó það hafi verið Gróttumaðurinn sem féll á endanum, og það inn í teig, vítaspyrna! Bjössi vítabani átti ekki séns í örugga spyrnu Gróttumannsins Magnúsar Bernhard og staðan því 1-1 gegn gangi leiksins.

 

Heimamenn virtust hálf sjokkeraðir yfir þessu því einungis tveim mínútum síðar hafði Gróttan bætt við öðru marki er Magnús Bernhard var aftur á ferð og potaði boltanum inn eftir klúður og klafs í vítateignum, 1-2 og algjört sjokk. Hálfleikur!

 

Síðari hálfleikurinn var keimlíkur þeim fyrri þó Gróttan hafi fært sig örlítið upp á skaftið og þóttist sýna tilburði til þess að geta kallast 3. besta lið 2. deildar 2012. Dómari leiksins, sem væntanlega (og vonandi) hefur átt betri dag, færði gestunum svo aukaspyrnu á stórhættulegum stað við vítateiginn vinstra megin á 62. mínútu. Magnús Bernhard tók spyrnuna sem flæktist í ítalskri hippahárgreiðslu Arnþórs og flaug inn í mark Hamars, staðan 1-3 og Arnþór á tíma í klippingu hjá Ópus strax á mánudaginn, amerísk hermannaklipping með kambi númer 3 og ekkert annað í boði.

 

Var nú komið að þætti gulldrengsins Sigurðar Gísla sem á árum áður var ætíð nefndur súkkulaðidrengurinn eða kókópöffs krakkinn en eftir gullmarkið í Visa bikarnum hefur verið tekinn í fullorðinna manna tölu og því öðlast alvöru viðurnefni við hæfi slíks meistara. Gulldrengurinn hafði ekki verið inn á vellinum í nema 7 mínútur er hann brunaði gegnum vörn gulklæddra Gróttumanna sem sáu engan annan möguleika í stöðunni en að bregða fyrir hann fæti inn í vítateig sínum og ræna hann marktækifæri. Rautt spjald á Selfyssinginn Guðmund Martein, víti og Ölli mættur á punktinn. Örugg spyrna fyrirliðans minnkaði muninn í 2-3 og nýr leikur í gangi með einungis 10 gulklædda á vellinum.

 

Mikil spenna færðist nú yfir leikmenn og áhorfendur en gestirnir reyndu þó hvað þeir gátu til að fær ró yfir mannskapinn með endalausum töfum og seinagangi sem dómari leiksins lét viðgangast án athugasemda. Hrafnkell, sem er drengur góður og má ekkert illt sjá, þótti erfitt að horfa upp á svona ósanngjarna skiptingu leikmanna á vellinum og nældi sér í rautt spjald á 90. mínútu og því keppt á jafnréttisgrundvelli eftir það, 10 á móti 10. Var nú mikil spenna og kepptust liðin við að ná sínu takmarki, Hamar að skora og jafna leikinn en Grótta að drepa tímann og halda fengnum hlut. Endalausar tafir gestanna skiluðu leiknum í viðbótartíma sem átti svo sannarlega eftir að koma aftan að þeim því nú var komið að þætti Súper-Sene sem hafði verið ógnandi allan leikinn og haldið varnarmönnum gestanna á tánum. Í þetta sinn vantaði 10 selfysskar tær í vörn Gróttu og nýtti Súper-Sene sér það er hann lagði boltanum í stöngina og inn og jafnaði leikinn 3-3. Allt ætlaði um kolla að keyra og sögðust áhorfendur leiksins í austurenda stúkunnar jafnvel hafa séð 3-4 dropa skjótast upp úr Grýlu gömlu. Já Grýla er ekki dauð, hún býr í Hveragerði og hún passar upp á sína menn á vellinum hennar. Jafntefli varð niðurstaðan og miðað við gang leiksins, nokkuð sanngjörn niðurstaða.

 

Næsti leikur Hamars er gegn húsvískum Völsungum á Grýluvelli laugardaginn 19. maí kl. 16:00. Mætum öll á völlinn og styðjum strákana okkar. 

Áfram Hamar!!!