Birgir hefur verið máttarstólpi íþróttastarfs í Hveragerði síðan löngu áður en Íþróttafélagið Hamar verður til. Birgir spilaði stöðu línumanns í handbolta á sínum yngri árum með KR og flutti til Hveragerðis þegar hann hóf nám hér í Garðyrkjuskólanum. Hann hélt síðan út til Jótlands í framhaldsnám og þjálfaði handbolta með Stige meðan á náminu stóð. Þegar hann flutti aftur heim til Hveragerðis var eitt af hans fyrstu verkum að stofna Handboltadeild hér í Íþróttafélagi Ölfus og Hveragerði sem varð mjög vinsæl og starfaði í fjölmörg áráður en hún lagðist af sökum þess að ekki var hér löglegan handboltavöll að finna til keppnisleikja.

Birgir vann ötullega fyrir Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði og eitt af verkefnum þess var skafmiði (svokallaður Ferðaþristur) þar sem ágóðinn átti m.a. að fara í uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Þetta verkefni fór mjög illa, kostnaður þess var langt umfram tekjur og varð þess valdandi að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Birgir var einn af ábyrgðarmönnum félagins og þurfti hann persónulega að greiða skuldir félagins. Aðrir aðilar sem voru í persónulegri ábyrgð urðu gjaldþrota sem gerði það að verkum að Birgir var gerður persónulega ábyrgur fyrir þeim skuldum sem aðrir ábyrgðarmenn áttu að taka. Erfitt er að setja sig inn í þær aðstæður sem voru uppi þarna og það óréttlæti sem fólst í því að gera Birgi ábyrgan fyrir gjaldþroti félagsins en hann lét engan bilbug á sér finna, vann sig út úr þessu og hélt áfram að vinna ötullega að íþróttastarfi í Hveragerði.

Sama ár og Ungmennafélag Ölfus og Hveragerði verður gjaldþrota er Íþróttafélagið Hamar stofnað, nánar tiltekið 28. mars 1992. Fljótlega eftir stofnun þess fór Birgir að láta til sín taka fyrir Körfunattleiksdeildina. Upphafið af því má rekja til þess þegar hann og Lárus Ingi formaður hittust og Birgir nefndi að deildin ætti að skoða það að fara að selja inn á leikina. Eftir smá umhugsun sagði Lárus; Það er fínasta hugmynd, þú sérð bara um þetta Biggi minn. Þar með var það fest í sögubækurnar því eins og allir vita segir enginn nei við Lárus.

Síðan hefur Birgir verið einn öflugasti bakhjarl Körfuknattleiksdeildarinnar og er það enn. Okkur er það mikill heiður að fá að sæma hann gullmerki Íþróttafélagsins Hamars.