Íþróttafélagið Hamar fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ við athöfn á Hótel Örk þriðjudaginn 18. nóvember síðastliðinn.

Kári Mímisson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti fulltrúum félagsins viðurkenninguna fyrir aðalstjórn og sjö deildir félagsins, badmintondeild, blakdeild, fimleikadeild, knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, lyftingadeild og sunddeild.

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþrótta-hreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar viðurkenning hefur verið veitt gildir hún í fjögur ár. 

Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Handhafar hennar hafa samþykkt stefnur og viðbragðsáætlanir í flestum þeim málum er snúa að íþróttastarfi. Fjölbreytt markmið með starfinu liggja fyrir og það eitt og sér eykur líkur á því að allir sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti rói í sömu átt, félaginu til heilla og framfara. Siðareglur liggja fyrir, persónuverndarstefna er klár auk stefna í fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum svo eitthvað sé nefnt.