Þær Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir voru á dögunum valdar í lokahóp U-16 ára landsliðs stúlkna í körfuknattleik. Stelpurnar munu spila með liðinu á Norðurlandamótinu sem fram fer í Kyselka í Finnlandi dagana 26. júní – 3. júlí og svo aftur á Evrópumótinu sem verður haldið í Podgorica í Svartfjallalandi dagana 16-25. ágúst. Þjálfarar landsliðsins eru Sunnlendingarnir Árni Þór Hilmarsson og Hallgrímur Brynjólfsson.

Stelpurnar hafa spilað með sínum aldursflokki með sameiginlegu liði Hamars/Hrunamanna síðastliðin ár með góðum árangri en liðið spilar í A-riðli Íslandsmótsins og er á meðal fimm bestu liða landsins. Í vetur hafa þær einnig spilað með meistaraflokki Hamars í 1. deild kvenna, þar sem þær hafa fengið að spreyta sig á móti eldri og reyndari leikmönnum. Þar hafa þær staðið sig vel og fengið mikla reynslu. Stelpurnar eru metnaðarfullar og leggja sig mikið fram á hverri einustu æfingu. Það verður gaman að fylgjast með þeim í sumar og spennandi tímar framundan hjá þeim.