Hamar – Stjarnan í 1. deild kvenna og nokkur spenna í húsinu í Hveragerði enda um að keppa laust sæti í Dominos deild kvenna næsta tímabil. Kjartan flottur í tauinu á bekknum fjá Stjörnunni en Hallgrímur breytti engu í klæðaburði á hliðarlínu Hamars og treysti á sína daglegu útgeislun.  Hvort það var útgeislun Hadda eða frekar heldur krafturinn í Hamars stúlkum þá vannst leikurinn á endanum 75-60 þar sem ekkert var gefið.
 
Leikurinn byrjaði fjörlega og Hamar náði 10-2 forystu og virtist ætla að gera út um leikinn strax en svo fór þó ekki. Stjarnan jafnaði og gott betur, komust í 10-12 og liðin héldust hönd í hönd út fyrsta leikhluta sem endaði 18-18 og 2. leikhluti endurtekning nema hvað bæði lið hittu aðeins verr en heimastúlkur leiddu þó fyrir sjoppuhlé, 30-28 og eins og bæði lið væru að bíða með að hrökkva almennilega í gang.
 
3.leikhluti var eins og í framhaldsmynd og nú voru Stjörnustúlkur frekar með frumkvæðið framan af en á endanum vann Hamar leikhlutann 24-21 og og samanlagt 54-49. Rétt þegar heimamenn héldu að þetta væri að fara að ganga upp setti en Bryndís Hanna í skotgírinn fyrri Stjörnuna (sem hún var að vísu í allan leikinn) og setti 7 stig á skömmum tíma og jafnaði 57-57 og allt á suðupunkti. Hér voru um 6 mínútur eftir af leiknum. Íris Ásgeirs svaraði fyrir heimastúlkur með 3ja stiga körfu og í kjölfarið fylgdu 4 stig frá Hamarsstúlkum áður en 1 stig kom frá vítalínu Stjörnunnar og leikurinn snérist algerlega heimastúlkum í vil eftir þetta. Loka leikhlutinn fór 21-11 og lokatölur því 75-60.
 
Þessi niðurstaða er kannski helst til stór munur þar sem leikurinn var lengstum jafn en 11 sinnum var jafnt í leiknum og liðin skiptust 9 sinnum á að hafa forustuna en þegar á 4. leikhlutann leið hættu Stjörnustúlkur að hitta úr sínum 3ja stiga skotum og áttu erfitt uppdráttar inn í teig.
 
Bryndís Hanna var best Stjörnukvenna með 23 stig og 4 stoðsendingar. Kristín Fjóla, Lára og Heiðrún settu hver 7 stig en aðrar minna.
 
Hjá Hamri var Marín með 19 stig og 10 fráköst/4 stoðs., Íris Ásgeris 17 stig/7 stoðs./5 stolnir, Jenný 15 stig, Bjarney 11 stig/4stoðs., Katrín 7 stig/6 fráköst/4 stoðs., Álfhildur 5 stig/12 fráköst, Regína 1 dyig/6fráköst.
 
 
Það er því ljóst að Hamar getur tryggt sig upp um deild á laugardag í Ásgarði en Stjarnan hefur engu að tapa og gefa án efa allt í leikinn til að knýja fram oddaleik í Hveragerði. Leikurinn í Ásgarð á laugardaginn er kl. 16.30   Áfram Hamar.