Íþróttafélagið Hamar Hveragerði

Lög Hamars

Lög Íþróttafélagsins Hamars

1. kafli 
Um Íþróttafélagið Hamar

1. grein. 
Félagið heitir Íþróttafélagið Hamar, og hefur aðsetur sitt í Hveragerði á Suðurlandi.

2. grein.

Merki félagsins er:

1422532_hamar-logo-jpg

3. grein. 
Keppnisbúningur og æfingabúningur félagsins skal vera í bláum og hvítum aðallitum með hvítri áletrun og merki félagsins í vinstri barmi.
Hverri deild innan félagsins er heimilt að útfæra ofangreinda aðalliti á keppnisbúningum að eigin vild, en þó fá staðfestingu aðalstjórnar. Heimilt er hverri deild að setja á aðra búninga en keppnisbúninga, táknmerki viðkomandi deildar og stofnár.

2. kafli 
Markmið Íþróttafélagsins Hamars

4. grein. 
Markmið félagsins eru:
a. Að efla áhuga á íþróttaiðkun, líkamsrækt og heilbrigðu líferni.
b. Að standa fyrir öflugu og faglegu íþrótta- og félagsstarfi, sérstaklega meðal barna og unglinga.
c. Efla keppnis- og afreksíþróttir.
d. Að vinna gegn tóbaksreykingum, neyslu áfengis og vímuefna.
e. Að vinna að markmiðum og stefnuskrá Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands með kjörorðunum „ÍSLANDI ALLT“.

5. grein. 
Íþróttafélagið Hamar er aðili að Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK), sem er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍÓÍ) og Ungmennafélagi Íslands(UMFÍ).

3. kafli 
Félagar

6. grein. 
Félagið er myndað af einstaklingum sem mynda deildir um iðkun viðurkenndrar íþróttagreinar eða annarrar starfsemi sem samrýmist markmiðum ungmenna- og íþróttafélagshreyfingarinnar og hafa sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili félagsins milli aðalfunda.

7. grein. 
Félagi getur hver sá orðið sem æskir þess og greiðir árgjald (sé það innheimt) eða iðkenndagjald.  Heimilt er að skrá sig í fleiri en eina deild.  Félagar skuldbinda sig til að fara að lögum félagsins, hlíta keppnisreglum og vera félaginu til sóma hvarvetna sem þeir koma fram á vegum eða fyrir hönd félagsins. Aðalstjórn er heimilt að víkja félaga úr félaginu hafi hann brotið gegn lögum félagsins eða álíti hún framkomu hans eða gjörðir að öðru leyti vítaverðar.

8. grein. 
Heimilt er að afla styrktarfélaga sem hafa öll sömu réttindi og aðrir félagar.  Ákveða skal félagsgjald styrktarfélaga til deilda á aðalfundi viðkomandi deildar en til aðalstjórnar á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars.

9. grein. 
Íþróttafélagið Hamar hefur heimild til að innheimta árgjald félaga.  Skal það vera sama hjá öllum deildum og ákveðið á aðalfundi félagsins

4. kafli 
Deildir

10. grein. 
Deildir skulu standa fyrir iðkun og eftir atvikum æfingum og keppni í viðurkenndum íþróttagreinum skv. skilgreiningu ÍÓÍ eða annarri starfsemi sem samrýmist markmiðum íþrótta og ungmennafélaganna.  Aðalstjórn skal halda sérstaka skrá yfir þær deildir sem starfandi eru innan félagsins hverju sinni. Til þess að deild teljist starfhæf skulu að jafnaði a.m.k. 10 félagar skráðir í deildina.

Komi fram skrifleg umsókn frá amk. 10 sjálfráða einstaklingum um stofnun nýrrar deildar innan félagsins, skal aðalstjórn félagsins standa fyrir stofnfundi nýrrar deildar samkv. 13. gr. laga félagsins og leggja síðan fyrir næsta aðalfund félagsins til samþykktar.  Aðalstjórn getur þó veitt nýrri deild bráðabirgðaraðild fram að næsta aðalfundi.

11. grein. 
Hver deild innan félagsins hefur sérstaka stjórn og sér fjárhag.  Stjórn hverrar deildar félagsins skal skipuð þrem til fimm mönnum; formanni, gjaldkera og ritara sem og allt að tveimur meðstjórnendum. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi og deildarstjórn ákveður verkaskiptingu meðstjórnenda á fyrsta stjórnarfundi.  Kjörtímabil deildarstjórna er á milli aðalfunda viðkomandi deilda.  Skylt er að halda stjórnarfundi reglulega.  Halda skal sérstaka gjörðabók um stjórnarfundi og greina frá starfi deilda á framkvæmdastjórnarfundum.

Heimilt er að stofna unglingaráð innan deilda sem skal sérstaklega sjá um og vinna að eflingu starfsins hjá börnum og unglingum.  Unglingaráð starfar á vegum stjórnar deildarinnar og skal kosið í það á aðalfundi deildar eða skipun þess staðfest á aðalfundi.  Deildirnar skulu setja sér nánari reglur um skipun, starfshætti og starfsemi unglingaráðs. Halda skal fjárhag unglingaráðs aðskildum frá öðrum fjárhag deildarinnar en áætlanir og ákvarðanir um fjáraflanir og ráðstöfun fjármuna skulu hljóta samþykki deildarstjórnar, og lúta að öllu leyti sömu skilmálum og gilda um fjármál deilda, sbr. m.a. ákvæði 13. greinar laga þessara.   Að sama skapi er heimilt að stofna sérstök meistaraflokksráð sem lúta sömu skilyrðum og unglingaráð.

12. grein. 
Stjórnir deilda skulu framfylgja samþykktum aðalfunda deilda og ráða daglegum rekstri þeirra, þar á meðal ráða þjálfara og ákveða laun þeirra. Hver deild skal halda nákvæmt félaga- og iðkendatal samkvæmt lögum og reglum UMFÍ og ÍÓÍ.   Hver deild skal skila aðalstjórn félagatali sínu fyrir 30 janúar ár hvert.

Aðalstjórn skal setja verklagsreglur um fjárreiður og bókhald félagsins og deilda þess og skal framkvæmdastjórn hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt.  Hverri deild er skylt að leita samþykkis aðalstjórnar ef hún hyggur á lántökur til reksturs deildar í lengri eða skemmri tíma.

Hver deild aflar fjár til sinnar starfsemi og hefur tekjur af:
a. Árgjöldum deildar.
b. Æfingagjöldum.
c. Styrktarfélagsgjöldum.
d. Ágóða af íþróttamótum viðkomandi deildar.
e. Lottótekjum skv. skiptareglum og öðru fjármagni til skipta.
f. Öðrum tekjuöflunarleiðum sem ekki rekast á við starf annarra deilda.

Deildarstjórn skal halda skýrslu um starf deildarinnar sem lögð skal fyrir aðalfund deildarinnar og afhent aðalstjórn til birtingar í ársskýrslu félagsins.

13. grein. 
Aðalfundir deilda félagsins skulu vera haldnir eigi síðar en 15. febrúar fyrir liðið starfsár.

Atkvæðisrétt á aðalfundi deildar hafa allir félagar/iðkendur deildarinnar, enda hafi þeir greitt öll lögboðin gjöld.  Kjörgengir eru þó aðeins félagar deildarinnar sem náð hafa 15 ára aldri, nema til formanns og gjaldkera verða þeir að vera 18 ára.  Til aðalfundar deilda skal boða með viku fyrirvara með auglýsingu í staðarblöðum, viðurkenndum auglýsingastöðum og heimasíðu félagsins.  Er hann löglegur sé löglega til hans boðað.  Stjórn skal leggja fyrir aðalfund fjölfaldaða ársskýrslu, ársreikninga og fjárhagsáætlun.

Dagskrá aðalfunda deilda skal vera sem hér segir:
1. Formaður deildarinnar setur fundinn.
2. Kosnir fundarstjóri og fundarritari.
3. Formaður leggur fram ársskýrslu deildarinnar
4. Gjaldkeri leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga, sem síðan eru bornir undir atkvæði.
5.  Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun til afgreiðslu.
6. Stjórnarkjör:
a. Kosinn formaður.
b. Kosnir meðstjórnendur
7. Önnur mál.

Á aðalfundi deilda ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála.  Kosning deildarstjórna skal vera skrifleg, ef þurfa þykir.  Ef atkvæði eru jöfn skal kosið bundinni kosningu og fáist enn ekki úrslit skal hlutkesti ráða.

14. grein
Vanræki einhver deild að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal framkvæmdastjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

Sé deild lögð niður eða starfsemi leggst af tímabundið skal aðalstjórn fara með vald deildarinnar og fjármuni.

5. kafli 
Aðalfundur Íþróttafélagsins Hamars

15. grein. 
Aðalfundur Íþróttafélagsins Hamars fer með æðsta vald í málefnum félagsins.  Aðalfund skal halda eigi síðar en 15. mars ár hvert.  Til aðalfundar skal boða með bréfi til stjórna allra deilda félagsins og auglýsingu í staðarblöðum, á viðurkenndum auglýsingastöðum og heimasíðu félagsins. Boða skal aðalfund með tveggja vikna fyrirvara og er hann löglegur ef löglega er til hans boðað.  Allir félagar 16 ára og eldri hafa kjörgengi til aðalfundar og 18 ára og eldri til stjórnarstarfa í aðalstjórn.  Allir félagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins og deilda þess.  Aðalstjórn skal leggja fyrir aðalfund fjölfaldaða ársskýrslu félagsins, ársreikninga og fjárhagsáætlun næsta árs.  Einnig skal liggja fyrir í árskýrslu félagsins ársskýrsla og fjárhagsyfirlit hverrar deildar.

Hafi deild ekki haldið aðalfund eða sent fullgilt félagatal/iðkenndalista til aðalstjórnar á tilsettum tíma, eða ársreikningar deildar eru ekki samþykktir á aðalfundi hennar missir viðkomandi deild rétt til úthlutunar úr sameiginlegum sjóðum félagsins.

Dagskrá aðalfundar Íþróttafélagsins Hamars skal vera sem hér segir:

 1. Formaður setur fundinn.
 2. Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
 3. Formaður flytur ársskýrslu félagsins.
 4. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins.
 5. Umræður um skýrslu formanns og gjaldkera og reikningar félagsins bornir upp til samþykktar.
 6. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun aðalstjórnar til samþykktar og deilda til staðfestingar.
 7. Lagabreytingar.
 8. Stjórnarkjör:
  1. Kosinn formaður.
  2. Kosinn gjaldkeri.
  3. Kosnir þrír meðstjórnendur
 9. Kosnir tveir skoðunarmenn.
 10. Önnur mál.
 11. Ávörp gesta.
 12. Verðlaunaafhending og lýst kjöri íþróttamanns Íþróttafélagsins Hamars.

Heimilt er fundarstjóra að færa til dagskrárliði með samþykki fundarins.

16. grein. 
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála.  Kosningar skulu vera skriflegar ef þurfa þykir.  Séu atkvæði jöfn skal kjósa bundinni kosningu um þá menn að nýju.  Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.

17. grein. 
Reikningsár félagsins og deilda þess er almanaksárið.

6. kafli. 
Aðalstjórn og framkvæmdastjórn.

18. grein. 
Aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.   Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn.  Fyrsta fund aðalstjórnar skal boða innan 15 daga frá aðalfundi félagsins.  Aðalstjórn skal að jafnaði funda mánaðarlega og skulu aðalstjórnarfundir tímasettir fyrir allt árið á fyrsta fundi eftir aðalfund.  Halda skal sérstaka gjörðabók um aðalstjórnarfundi.

19. grein. 
Framkvæmdastjórn félagsins skipa stjórnarmenn aðalstjórnar og fulltrúar deilda félagsins.  Þó að hámarki 2 frá hverri deild. Bæta má við einum fulltrúa fyrir hverja undirstjórn sem deildir hafa (t.d. mfl. ráð eða unglingaráð enda hafi þær sérstaka stjórn og sérstakan fjárhag).

20. grein. 
Aðalstjórn félagsins ber að framfylgja samþykktum aðalfundar, koma fram fyrir hönd félagsins, efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna.  Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og ræður starfsemi þess í aðalatriðum í samráði við deildarstjórnir.  Framkvæmdastjórn eða aðalstjórn ákveður verklagsreglur fyrir úthlutun úr sameiginlegum sjóðum. Ef framkvæmdastjórn getur ekki náð sátt um verklagsreglur tekur aðalstjórn við og ákveður verklagsreglur. Aðalstjórn sér um framkvæmd úthlutana. Sameiginlegir sjóðir eru í umsjón aðalstjórnar. Framkvæmdarstjórn getur stofnað, sameinað og lokað sjóðum ef sátt er um ákvörðunina. Alla sjóði félagsins skal ávaxta í banka eða sparisjóði.  Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin aðalfundarsamþykkt.  Heimilt er aðalstjórn og framkvæmdastjórn félagsins að skipa nefndir sem hún telur þörf á.

7. kafli 
Heiðursviðurkenningar

21. grein. 
Aðalfundur getur kosið heiðursfélaga Íþróttafélagsins Hamars hvern þann sem unnið hefur afbragðs starf í þágu félagsins og er það æðsti heiður sem félagið veitir.  Til kosningar heiðursfélaga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Jafnframt hefur stjórn Hamars heimild til að veita félaga í Hamri gullmerki Hamars. Skal það gert á aðalfundi Hamars eða við önnur hátíðleg tilefni.

22. grein. 
Deildir innan félagsins velja íþróttamann sinnar deildar ár hvert, setja reglur þar um og veita verðlaun.

Framkvæmdastjórn félagsins kýs leynilegri kosningu íþróttamann Íþróttafélagsins Hamars.  Hlýtur hann til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar.

8. kafli 
Slit Íþróttafélagsins Hamars

23. grein. 
Ef félagið verður lagt niður verða eigur þess afhentar bæjarstjórn Hveragerðis til varðveislu.

9. kafli 
Lagabreytingar og gildistaka

24. grein. 
Lögum þessum má eingöngu breyta á lögmætum aðalfundi félagsins og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða.  Tillögur til breytinga á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær vera undirritaðar af flutningsmönnum.  Framkvæmdastjórn skal senda stjórnum deilda tillögur til lagabreytinga til kynningar amk. 4 dögum fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram, ef það er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

25. grein. 
Lög þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt eldri lög félagsins úr gildi fallin.

Samþykkt á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars hinn 8. mars 2007