Um síðustu helgi fór fram Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) í sundi í Reykjanesbæ. Þar átti Sunddeild Hamars sinn fulltrúa sem var María Clausen Pétursdóttir, fyrsti sundmaður Hamars í allmörg ár til að synda á þessu móti.
María synti 100 m bringusund á 1:43,70 mín. og bætti sig þar um 3,59 sek. Hún synti einnig 100 m. skriðsund á 1:18,87 mín og bætti sig þar um 3,92 sek.
María hefur lagt mikinn metnað í æfingar sínar og hefur styrkst mikið í vetur og framistaða hennar og framkoma var til mikillar fyrirmyndar. Því má vænta mikils af henni á næsta keppnistímabili.
Á myndinni eru Hallgerður og Sara frá Selfossi og María sem er lengst til hægri. Þessar stúlkur voru glæsilegir fulltrúar Sunnlendinga á mótinu!