Helga Sóley Heiðarsdóttir er Íþróttamaður Hamars 2018. Þetta var tilkynnt í dag á aðalfundi Hamars sem haldinn var í Grunnskólanum í Hveragerði.

Helga Sóley er ákaflega vel af þessum titli komin, hún hefur verið ein aðalmanneskja körfuknattleiksliðs Hamars í meistaraflokki og verið öflug í unglingalandsliðinu einnig.

Tímabilið 2017-2018 var Helga Sóley að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki, enda aðeins 15 ára gömul í upphafi tímabils. Hún varð strax lykilleikmaður í meistaraflokk Hamars sem spilaði í 1.deild. Helga vakti mikla athygli á vellinum fyrir mikla snerpu, ákveðni og dugnað á báðum endum vallarins þrátt fyrir ungan aldur og að vera að spila á móti töluvert eldri og reyndari leikmönnum.

Helga Sóley Heiðarsdóttir í leik.

Á sama tíma var Helga Sóley að spila með sínum jafnöldrum í 10. Flokk kvenna í sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna. Liðið endaði tímabilið með frábærum árangri og náði 4. sæti Íslandsmótsins. Helga Sóley var einn af lykilleikmönnum þessa liðs.

Á vordögum ársins 2018 var Helga Sóley valin í u16 ára landslið Íslands. Hún spilaði með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í Helsinki og Evrópumótinu í Serbíu. Helga Sóley var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu þetta ár og var til að mynda byrjunarliðsmaður í öllum leikjum liðsins.

Haustið 2018 hóf Helga Sóley þátttöku í körfuknattleiksakademíu FSu og spilar með stúlknaflokki undir merkjum Fsu. Stúlknaflokkliðið hefur náð góðum árangri á Íslandsmótinu nú þegar tímabilið er hálfnað.. Helga Sóley er einnig lykilleikmaður í meistaraflokki Hamars og fær stórt hlutverk í öllum leikjum liðsins.

Það er ljóst að árið 2018 hefur verið viðburðarríkt hjá þessum unga og efnilega íþróttamanni.

Helga Sóley er metnaðarfull og það fer aldrei fram hjá neinum að hún leggur sig ávallt 100% fram á öllum æfingum og leikjum. Hún skilur enga orku eftir. Hún er sterkur leikmaður á báðum endum vallarins. Í sókninni er hún dugleg að sækja upp að körfunni og stingur jafnan varnarmennina af.. Helga Sóley er líka ákveðinn varnarmaður sem er dugleg að gera sóknarmönnum andstæðingana erfitt fyrir.

Helga Sóley mætir allar æfingar og er dugleg að gera aukaæfingar. Hún hlustar vel á leiðbeiningar frá þjálfurum og er sífellt að vinna í að verða enn betri leikmaður.

Helga Sóley er góð fyrirmynd sem sýnir hvað hægt er að ná langt með áhuga, dugnað og vinnusemi í farteskinu.

Íþróttafélagið Hamar óskar Helgu Sóleyju innilega til hamingju með titilinn og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.

Aðrir sem tilnefndir voru eru sem hér segir:

Hluti af þeim hópi sem var tilnefndur í kjöri Íþróttamanns Hamars 2018. Allt saman mikið afreksfólk sem við erum stolt af.

KÖRFUKNATTLEIKSDEILD
Helga Sóley Heiðarsdóttir, körfuknattleiksmaður Hamars 2018

KNATTSPYRNA
Stefán Þór Hannesson, knattspyrnumaður Hamars 2018

SUNDDEILD
María Clausen Pétursdóttir, sundmaður Hamars 2018

BLAKDEILD
Baldvin Már Svavarsson, blakmaður Hamars 2018

BADMINTONDEILD
Margrét Guangbing Hu, badmintonmaður Hamars 2018

FIMLEIKADEILD
Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir, fimleikamaður Hamars 2018

Hamarskonur tóku á móti Grindavík í Frystikistunni í dag. Leikurinn fór jafn af stað, liðin skiptust forystu allan fyrri hálfleikinn og var jafnt í hálfleik 27-27. Hamarskonur voru sprækar og létu ekki óvænt forföll liðskvenna á sig fá en Marín Laufey, Álfhildur og Dagrún Inga voru allar frá vegna meiðsla og veikinda. Gígja Marín fór svo útaf í þriðja leikhluta vegna ökklameiðsla.

Fljótlega í þriðja leikhluta fór Grindavík að síga fram úr, þær stálu mörgum boltum (19 samtals í leiknum) og fengu hraðaupphlaup sem smám saman jók á forskot þeirra. Í þriðja leikhluta var staðan 36-50 fyrir Grindavík og Grindavík jók svo smám saman forskotið og endaði leikurinn 53-73.
Hamarskonur börðust þó allan leikinn og áttu virkilega góðan fyrri hálfleik á móti sterku liði Grindavíkur sem situr á toppi deildarinnar ásamt Fjölni.

Í liði Hamars var Íris Ásgeirsdóttir atkvæðamest með 19 stig og 12 fráköst. Hún lenti snemma í villuvandræðum en náði að spila vel allan leikinn þrátt fyrir það. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir átti jafnframt flottan leik, var með 11 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Þórdís var að spila sinn fyrsta leik
með Hamri en hún spilar með Breiðablik í úrvalsdeildinni og er því á venslasamningi. Gígja Marín var með 7 stig og aðrar minna.

Í liði Grindavíkur var Hrund Skúladóttir atkvæðamest en hún var með 17 stig, 11 fráköst og 4 stolnabolta. Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir og Ólöf Rún Óladóttir áttu báðar góðan leik með 14 stig hvor. Aðrar voru með minna en stigaskorið dreifðist nokkuð vel hjá Grindavíkurkonum.

Föstudaginn 28. desember var kynnt val á íþróttafólki Hveragerðis 2018. Þar tilnefna deildir Hamars sína íþróttamenn auk þess sem veitar eru viðurkenningar til landsliðsfólks. Hvergerðingar eiga  tvær landsliðsstúlkur, Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir og einnig voru valinn körfuknattleikskona, Helga Sóley Heiðarsdóttir, og körfuknattleiksmaður, Arnar Dagur Daðason fyrir árið 2018. Á mynd með frétt eru Arnar Dagur og Gígja Marín.

Í vikunni voru valdir æfingahópar fyrir yngri landslið Íslands í körfubolta. Hamar á fjóra fulltrúa í þessum æfingahópum og er félagið stolt af þeirra árangri.

 

Hrafnhildur Hallgrímsdóttir var valin í æfingahóp u-15 ára landsliðs stúlkna.

Haukur Davíðsson var valinn í æfingahóp u-15 ára landsliðs drengja.

Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir voru valdar í æfingahóp u-18 ára landslið stúlkna.

 

Þá eru tveir þjálfarar frá Hamri sem að taka þátt í komandi landsliðsverkefnum. Maté Dalmay er þriðji þjálfari u-16 ára liðs drengja og Þórarinn Friðriksson er þriðji þjálfari u-18 ára landsliðs drengja.

 

Við óskum þessum ungu og efnilegu leikmönnum til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis á fyrstu æfingadögunum sem fara fram milli jóla og nýárs.

Landsliðshópana í heild má sjá hér: 

https://www.karfan.is/2018/12/thjalfarar-og-aefingahopar-yngri-landslida-klar-fyrir-verkefni-naesta-sumars/

 

 

Í gærkvöldi heimsótti topplið Fjölnis Hamarsstúlkur í Frystikistuna. Leikurinn fór rólega af stað og liðin skiptust á að skora. Undir lok fyrsta leikhluta náði Fjölnir smá forskoti og staðan í lok leikhlutans var 14-21 Fjölni í vil.  Annar leikhluti byrjaði nokkuð jafnt en um miðbik leikhlutans meiðist Alexandra Petersen sem hafði byrjað leikinn vel og sett niður 16 stig. Við það eflast Fjölnisstelpur og gefa allt í leikinn og auka þær forskotið jafnt og þétt. Fjölnir sigraði leikinn örugglega 78-54. Dómararnir voru heldur flautuglaðir þetta föstudagskvöld og náðist lítið flæði í leikinn sem var mikið stoppaður. Fjórar Hamarskonur fengu rauða spjaldið og fóru út af með 5 villur.

Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst í Hamarsliðinu með 13 stig, Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 11 stig og tók 9 fráköst, Dagrún Inga Jónsdóttir var með 9 stig og fiskaði 5 villur á andstæðingana, Helga Sóley Heiðarsdóttir var með 8 stig.

Áberandi var hversu vel stigaskorið dreifðist hjá Fjölnisliðinu. Alexandra Peterson var stigahæst með 16 stig þrátt fyrir að hafa einungis spilað fyrstu 17 mínútur leiksins. Margrét Ósk Einarsdóttir var með 15 stig og 6 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir var með 12 stig, 7 fráköst og fiskaði 7 villur. Berglind Karen Ingvarsdóttir skoraði 8 stig og stal 3 boltum.

Hamar og ÍR mættust í kvöld í íþróttahúsinu í Hveragerði í fyrsta leik 1.deildar kvenna á þessu tímabili. Liðin voru jöfn framan af leik en Hamar tók að síga fram úr undir lok 1. leikhluta, sá leikhluti fór 15-9 fyrir Hamar. Hamar leiddi í hálfleik 32-25. ÍR byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði að minnka muninn niður í 2 stig. Þær pressuðu stíft á Hamarskonur sem lentu í smá basli við að leysa pressuna. Hamar tók svo forystuna aftur en liðið var að spila góðan varnarleik í seinni hálfleik og voru Helga Sóley og Íris sérstaklega grimmar að stela boltum. Hamar var svo með nokkuð örugga forystu allan síðasta leikhlutann og endaði leikurinn 69-56 fyrir Hamri.

 

Það var sérstaklega gaman að sjá Írisi Ásgeirsdóttur aftur á parketinu en hún átti þrusu leik, var stigahæst í liðinu með 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Það var líka gaman að sjá þrjá unga leikmenn stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki en þær koma frá Hrunamönnum. Það eru þær Una Bóel Jónsdóttir, Margrét Thorsteinson og Perla María Kristjánsdóttir sem stóðu sig allar mjög vel. Perla María átti mjög flotta innkomu af bekknum, endaði leikinn með 13 stig og átti mikilvægar körfur í síðari hluta leiksins. Álfhildur Þorsteinsdóttir átti góðan leik undir körfunni og skoraði 11 stig og reif niður 18 fráköst. Helga Sóley Heiðarsdóttir var með 11 stig og 5 stolna bolta. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 5 stig, Bjarney Sif Ægisdóttir 5 stig, Dagrún Inga Jónsdóttir 4 stig, Rannveig Reynisdóttir var með 2 stig og 6 fráköst. Góður sigur liðsheildar Hamars þar sem allir lögðu sitt af mörkum.

 

Hjá ÍR átti Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir góðan leik, var með 10 stig og 8 fráköst. Nína Jenný Kristjánsdóttir var öflug undir körfunni og setti 13 stig. Birna Eiríksdóttir setti 11 stig og Katla María Stefánsdóttir setti 9 stig.

 

Það var vel mætt í íþróttahúsið í Hveragerði í kvöld og tímabilið fer vel af stað hjá Hamarskonum. Næsti leikur þeirra er í Njarðvík laugardaginn 13. október.

Tölfræðileiksins má finna hér

Leikmenn Hamars í meistaraflokki kvenna skrifuðu á dögunum undir leikmannasamninga fyrir komandi tímabil. Leikmannahópurinn er að mestu leyti óbreyttur frá því í fyrra og Kristinn mun þjálfa liðið áfram. Þórunn Bjarnadóttir þarf frá að hverfa sem leikmaður en hún á von á barni í desember. Hún hefur þó ekki sagt skilið við liðið heldur skrifaði undir samning um að sinna starfi aðstoðarþjálfara í vetur, ómetanlegt fyrir liðið að njóta krafta hennar áfram.

Dagrún Inga Jónsdóttir hefur bæst við hópinn en hún kemur úr Þorlákshöfn. Dagrún Inga hefur spilað með U-16 landsliði Íslands og er mikill fengur fyrir liðið að fá hana í hópinn. Hrunastúlkurnar Perla María Karlsdóttir og Margrét Lilja Thorsteinson hafa einnig bæst við meistaraflokkinn en þær hafa hingað til spilað með sameiginlegu liði Hamars og Hrunamanna í stúlknaflokki.

Kvennalið Hamars er því skemmtileg blanda af sunnlenskum ungum, efnilegum stúlkum og eldri, reynslumeiri mæðrum!

Fyrsti leikur liðsins í vetur er heimaleikur föstudagskvöldið 5. október. Leikurinn verður nánar auglýstur þegar nær dregur. Við hvetjum fólk til að mæta á leiki og hvetja stelpurnar áfram.

Körfuknattleiksdeild veturinn 2018-2019

Nú er hafið starf hjá öllu flokkum á vegum kkd Hamars fyrir veturinn 2018-2019. Starfræktir verða flokkar fyrir öll börn á grunnskólaaldri auk þess sem Hamar verður með lið í mfl kvenna og karla. Einnig munu félöginn af suðurlandi, Hamar-Þór-Hrunamenn-Fsu, senda sameiginleg lið til keppni í drengjaflokki og stúlknaflokki. Samhliða því að Hamar byrji sitt starf er um leið mikilvægt að foreldrar skrá sín börn inn í viðkomandi flokka og er það gert á heimsíðu Hamars ( hamarsport.is ). Sú nýbreytni verður höfð á hjá kkd í vetur að nú er í boði að skrá barn fyrir allan veturinn eða bara fyrir hvora önn fyrir sig. Um leið verður sú breyting að þeir sem skrá/greiða fyrir allan veturinn fyrir 15.okt 2018 fá hettupeysu sem nafni félags, barni og logo Hamars um miðjan Nóvember. Ekki er verðmunur á þvi hvort skráð er fyrir eina önn eða allan veturinn en ekki fylgir þessi gjöf nema til þeirra sem skrá allan veturinn.  Inná heimasíðu hamarsport.is eru síðan upplýsingar um æfingagjöld og æfingatíma í einstökum flokkum.

Kv Daði Steinn   gsm: 6901706

Kristinn Ólafsson og Ragnheiður Eiríksdóttir formaður kvennaráðs körfuknattleiksdeildar Hamars handsala samninginn. 

 

Kvennaráð körfuknattleiksdeildar Hamars hefur gert samkomulag við Kristinn Ólafsson um að sjá um þjálfun meistaraflokks kvenna næstu tvö tímabil. Liðið var endurvakið síðastliðið haust og tók Kristinn þá við liðinu sem endaði í 6. sæti 1. deildar í vor. Í liðinu er skemmtileg blanda af ungum leikmönnum í bland við eldri og reyndari leikmenn. Það verður gaman að fylgjast með liðinu á næsta tímabili, en lagt verður upp með að byggja ofan á uppbyggingu síðasta tímabils og gera enn betur næsta vetur.

 

 

Þær Gígja Marín Þorsteinsdóttir og Helga Sóley Heiðarsdóttir voru á dögunum valdar í lokahóp U-16 ára landsliðs stúlkna í körfuknattleik. Stelpurnar munu spila með liðinu á Norðurlandamótinu sem fram fer í Kyselka í Finnlandi dagana 26. júní – 3. júlí og svo aftur á Evrópumótinu sem verður haldið í Podgorica í Svartfjallalandi dagana 16-25. ágúst. Þjálfarar landsliðsins eru Sunnlendingarnir Árni Þór Hilmarsson og Hallgrímur Brynjólfsson.

Stelpurnar hafa spilað með sínum aldursflokki með sameiginlegu liði Hamars/Hrunamanna síðastliðin ár með góðum árangri en liðið spilar í A-riðli Íslandsmótsins og er á meðal fimm bestu liða landsins. Í vetur hafa þær einnig spilað með meistaraflokki Hamars í 1. deild kvenna, þar sem þær hafa fengið að spreyta sig á móti eldri og reyndari leikmönnum. Þar hafa þær staðið sig vel og fengið mikla reynslu. Stelpurnar eru metnaðarfullar og leggja sig mikið fram á hverri einustu æfingu. Það verður gaman að fylgjast með þeim í sumar og spennandi tímar framundan hjá þeim.