Arnar Geir Helgason er mikill stuðningsmaður Hamars og fékk fyrir nær 18 ára samfleitt starf við ritaraborð á körfuboltaleikjum félagsins viðurkennigu og nafnbótina “Stuðningsmaður ársins 2013”.   Viðurkenninguna fékk Arnar Geir afhenta á aðalfundi Hamars sl. sunnudag.

 

Eftir að hafa verið á fullu í íþróttum hér í Hveragerði á sínum uppvaxtarárum þá var ljóst að að hér færi um handbolta- og fótboltavöllinn mikið efni í báðum íþróttum með mikla yfirvegun og áhuga á boltanum. Við veikindi við lok grunnskólagöngu verða miklar breytingar í lífi Arnars Geirs og eftir að hafa greinst með æxli við sjóntaug á 16 ári fór keppnisbaráttan frá vellinum og yfir í það að yfirstíga þann sjúkdóm og fjölmarga fylgikvilla og aukaverkanir sem komu í kjölfarið.  Ljóst var að  þátttöku Arnars á vellinum var lokið, í bili að minsta kosti. Þó hann hafi ungur lent í þessu áfalli sinnti hann námi áfram og lauk stútentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og svo seinna kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands.

 

Þegar Lárus Ingi Friðfinnsson leitaði eftir starfskröftum Arnars á ritaraborði körfuboltans fyrir nærri 18 árum síðan, var hann strax til og sá þannig fram á að halda sér í hringiðu íþróttanna hér í bæjarfélaginu með þeim hætti. Arnar Geir hefur verið á nánst öllum leikjum mfl. karla og kvenna í Íslandsmóti og bikarleikjum síðan og sú vinna sem hann hefur innt af hendi fyrir Körfuknattleiksdeild Hamars algerlega ómetanleg. Ef heimaleikir Hamars (karla og kvenna) eru á að giska 25 á ári þá er ljóst að nálægt 450 leikir við ritaraborðið eru að baki og Arnar Geir enn að störfum og hvergi hættur.

 

Við þökkum Arnari Geir enn og aftur fyrir alla hans vinnu og óeigingjart starf í þágu Kkd. Hamars sl. 18 ár, svona öðlingum verður seint nóglega þakkað.

Kkd.Hamars

Lárus Ingi Friðfinnsson