Arnar Eldon er 15 ára gamall og hefur stundað æfingar af miklu kappi síðastliðin ár. Hann byrjaði 12 ára að æfa fimleika þá nýfluttur til Hveragerðis en áður stundaði hann Taekwondo sem veitti honum innblástur og áhuga á öðrum íþróttum.

Í dag stundar hann einnig Parkour og er í Skólahreystisliði Grunnskóla Hveragerðis.

Arnar hefur undantekningarlaust mætt á æfingar og leggur sig allan fram á hverri einustu æfingu. Hann hefur sýnt miklar framfarir á stuttum tíma og bætt erfiðleikagildi vikulegra æfinga. Arnar keppti í fimleikum í fyrsta sinn í vetur. Hann tók þátt í Íslandsmóti í almennum fimleikum sem haldið var í Hveragerði og á HSK móti sem haldið var í Þorlákshöfn. Honum gekk vel á Íslandsmótinu og náði með góðum einkunnum að komast inn á  Meistaramót í almennum fimleikum. 

Á HSK mótinu vann hann til  verðlauna á öllum áhöldum (þrjú áhöld) og þar af fékk hann tvenn gullverðlaun. Arnar á framtíðina fyrir sér í fimleikum og það vantar ekki áhugann hjá þessum efnilega unga manni. Þess má geta að hann er eini strákurinn í hópi með yfir tuttugu stelpum á æfingum sem hann lætur ekkert á sig fá. 

Hann er góð fyrirmynd innan sem og utan hópsins og er duglegur að hjálpa til og hvetja aðra á æfingum.

Fimleikadeild Hamars óskar honum innilega til hamingju með titilinn